Wednesday, November 7, 2012

Íshokkíæfing

Sonur minn æfir íshokkí þrisvar í viku.  Vegalengd frá heimili okkar að skautahöllinni er 1,5 km og má áætla 15 mínútur í göngu eða eitthvað talsvert minna á hjóli.
Íshokkíæfingum fylgir gríðarmikill búnaður og er taskan utan um herlegheitin nær jafn stór 7 ára barni. Fyrst í stað leystum við flutninginn til og frá æfingum með því að skella töskuhlunknum ofan á kerruþak yngri sonarins en svo uppgötvuðum við að hægt er að leigja geymslupláss í höllinni og þar með var það leyst.
Hins vegar er farið að bera á því að það getur verið orðið ansi kalt úti þegar æfingu lýkur og við þurfum að koma okkur heim án bifreiðar*.  Börn eru viðkvæmari fyrir kulda en við fullorðna fólkið og ég tala ekki um þegar þau eru þreytt í þokkabót.  Það er því næsta mál að muna að taka trefil með til að vefja andlit og festa hettu aftur á úlpu til að gera heimferðina þarnæst þolanlega. Ég segi þarnæst því í dag ætlum við akandi á lánsbílnum góða. Þvílíkur lúxus.

*"eða gamaldags járnhylkis utan um okkur", eins og ég heyrði svo skemmtilega orðað um daginn.

No comments:

Post a Comment