Nú skyldu bakaðar tebollur enda fátt betra með síðdegiskaffinu en nýbakaðar tebollur með stórum hálfbráðnuðum súkkulaðibitum...mmmmm. Uppskriftin klár á tölvuskjánum og hráefnið tínt hvert af öðru fram: Hveiti, sykur, súkkulaði, salt, egg, lyftiduft, kókosmjöl, kardimommudropar...úpps ekki til og heldur ekki nóg af smjöri!!
Nú á ég ekki bíl og veðrið út er frekar fúlt og ég hálfpartinn nenni ekki að labba eða hjóla í næstu verslun en langar voðamikið í tebollurnar, hvað er þá til ráða? Jú, ég á vanilludropa og síðan má nú bara minnka smjörmagnið í uppskriftinni. Þannig slæ ég tvær flugur í einu höggi...spara mér ferð (og pening) í búðina og tebollurnar eru kannski ekki eins óhollar fyrir vikið.
Stundum er bara hægt að finna aðrar leiðir að hlutunum, kannski þurfum við ekki alltaf allt sem við höldum að við þurfum. Stundum er nóg að staldra við í smá stund og íhuga „þarf ég virkilega á þessu að halda?“ Niðurstaðan gæti komið okkur á óvart J
No comments:
Post a Comment