Í gær var milt veður og rigning.
Ég hljóp við fót úr vinnunni minni rétt fyrir klukkan fjögur, kom við heima til að taka til nesti, íshokkíbúnað og barnakerru. Hljóp (af því að ég var orðin hálfsein) á leikskólann að ná í yngri soninn, þaðan í frístundina að ná í þann eldri. Þaðan fórum við svo inn í Laugardal á íshokkíæfingu. Þá var kerran orðin ansi hlaðin og rétt að lýsa því aðeins: 1 þriggja ára strákur, poki með hjálmi, 2 pörum af skautum og hlýjum fatnaði, nestispoki, skólataska, leikfimitaska, sundtaska og hokkíkylfa. Einnig 7 ára drengur sem fær stundum far fremst á kerrunni þegar hann er ægilega þreyttur í fótunum (eftir allar þessar íþróttir). Þessu öllu ýtti svo ein lítil en sterk mamma. Þegar komið var í skautahöllina var sá eldri drifinn á skauta. Að æfingu lokinni var svo herlegheitunum ýtt til baka heim (20 mín). Blautum fötum raðað á ofna víðsvegar um íbúðina og svo tærnar upp í loft. Uss hvað ég væri til í að eiga bíl.
No comments:
Post a Comment