Friday, February 15, 2013

I Love my Bike!

Mikið ofsalega var ég glöð að vera á hjóli í morgun. Þegar ég kom út á bílastæði fyrir utan blokkina mína voru nágrannar mínir allir að hamast við það að skafa af bílunum sinum. Flestir þeirra voru líka illa búnir þar sem bíllinn þeirra er yfirhöfnin þeirra og þeir skulfu þvi úti í kuldanum með sköfunni sinni. Hins vegar hoppaði ég á fákinn minn vopnuð föðurlandi og úlpu og brunaði framhjá sköfunum og var komin í vinnuna tíu mínútum síðar laus við allar umferðarteppur. SCORE!


Thursday, January 17, 2013

Bíllaus and lovin'it!

Heil og sæl og gleðilegt nýtt ár,

Nýja árið leggst vel í mig og verður þetta ár bíllaust eins og fyrri ár. Ég rann hér í fljótu bragði yfir færslur meðbloggara minna og skil ekkert í þeim og löngunum þeirra í að eiga bíl. Persónulega finnst mér æðislegt að lifa bíllausum lífsstíl. Þeir sem eiga bíl þurfa nú í fyrsta lagi að kaupa bílinn og ofan á það borga af honum tryggingar, borga á hann eldsneyti og ég tala nú ekki um hinar ýmsu tilfallandi viðgerðir, skoðanir, smurningar og dekkjaskipti. Þennan pening spara ég mér árlega, reyndar sé ég hann ekki á bankabókinni minni því ég hef líklegast eytt honum í annað en það er málinu óviðkomandi :)

 Þannig ég segi bara: Bíllaus lífsstíll er lúxus!

Loksins hjólakerrufæri

Eftir frekar mikla hálkutíð gafst loksins tækifæri á að húkka hjólakerruna aftan´í hjólið og hjóla í búðina, en hjólakerran er nefnilega ekki á negldum dekkjum og því varasamt að hjóla með hana í mikilli hálku.

Að rölta í búðina er alveg ágætt en stundum væri gott að hafa aðeins meira geymslupláss fyrir innkaupapokana en það sem kemst í tvær hendur og/eða á eina barnakerru. Síðan tekur alltaf aðeins lengri tíma að rölta en hjóla og stundum langar manni bara að drífa innkaupaferðina af.

Annar ótvíræður kostur við hjólakerruna er skemmtanagildið en litla guttanum finnst fátt skemmtilegra en að sitja í kerrunni og bruna um borgina, hann skríkir af kæti. Stundum hefur hann með sér eina til tvær bækur og getur því "lesið" meðan ferðast er á milli staða.




Ofhlaðin kerra

Í gær var milt veður og rigning.
Ég hljóp við fót úr vinnunni minni rétt fyrir klukkan fjögur, kom við heima til að taka til nesti, íshokkíbúnað og barnakerru. Hljóp (af því að ég var orðin hálfsein) á leikskólann að ná í yngri soninn, þaðan í frístundina að ná í þann eldri.  Þaðan fórum við svo inn í Laugardal á íshokkíæfingu. Þá var kerran orðin ansi hlaðin og rétt að lýsa því aðeins: 1 þriggja ára strákur, poki með hjálmi, 2 pörum af skautum og hlýjum fatnaði, nestispoki, skólataska, leikfimitaska, sundtaska og hokkíkylfa. Einnig 7 ára drengur sem fær stundum far fremst á kerrunni þegar hann er ægilega þreyttur í fótunum (eftir allar þessar íþróttir). Þessu öllu ýtti svo ein lítil en sterk mamma.  Þegar komið var í skautahöllina var sá eldri drifinn á skauta. Að æfingu lokinni var svo herlegheitunum ýtt til baka heim (20 mín).  Blautum fötum raðað á ofna víðsvegar um íbúðina og svo tærnar upp í loft.  Uss hvað ég væri til í að eiga bíl.

Thursday, January 3, 2013

Fyrsta hjólaferð ársins

Fyrsta hjólaferð ársins til vinnu var að nokkru leyti eftir flughálum og ósléttum stígum höfuðborgarsvæðisins. Þessar aðstæður kalla á nagladekk á reiðhjól, annars er voðinn vís. Þetta gekk nú slysalaust fyrir sig en aðstæður á þessu landshorni gera kröfu um mjög markvissa snjómokstursþjónustu á stígum. Þannig er mikilvægt að stígar séu hreinsaðir vel áður en snjórinn treðst niður. Annars myndast hart lag sem verður mjög óslétt og nánast ófært hjólandi umferð.

Wednesday, November 7, 2012

Íshokkíæfing

Sonur minn æfir íshokkí þrisvar í viku.  Vegalengd frá heimili okkar að skautahöllinni er 1,5 km og má áætla 15 mínútur í göngu eða eitthvað talsvert minna á hjóli.
Íshokkíæfingum fylgir gríðarmikill búnaður og er taskan utan um herlegheitin nær jafn stór 7 ára barni. Fyrst í stað leystum við flutninginn til og frá æfingum með því að skella töskuhlunknum ofan á kerruþak yngri sonarins en svo uppgötvuðum við að hægt er að leigja geymslupláss í höllinni og þar með var það leyst.
Hins vegar er farið að bera á því að það getur verið orðið ansi kalt úti þegar æfingu lýkur og við þurfum að koma okkur heim án bifreiðar*.  Börn eru viðkvæmari fyrir kulda en við fullorðna fólkið og ég tala ekki um þegar þau eru þreytt í þokkabót.  Það er því næsta mál að muna að taka trefil með til að vefja andlit og festa hettu aftur á úlpu til að gera heimferðina þarnæst þolanlega. Ég segi þarnæst því í dag ætlum við akandi á lánsbílnum góða. Þvílíkur lúxus.

*"eða gamaldags járnhylkis utan um okkur", eins og ég heyrði svo skemmtilega orðað um daginn.

Tuesday, November 6, 2012

Tebollubakstur


Nú skyldu bakaðar tebollur enda fátt betra með síðdegiskaffinu en nýbakaðar tebollur með stórum hálfbráðnuðum súkkulaðibitum...mmmmm. Uppskriftin klár á tölvuskjánum og hráefnið tínt hvert af öðru fram: Hveiti, sykur, súkkulaði, salt, egg, lyftiduft, kókosmjöl, kardimommudropar...úpps ekki til og heldur ekki nóg af smjöri!!

Nú á ég ekki bíl og veðrið út er frekar fúlt og ég hálfpartinn nenni ekki að labba eða hjóla í næstu verslun en langar voðamikið í tebollurnar, hvað er þá til ráða? Jú, ég á vanilludropa og síðan má nú bara minnka smjörmagnið í uppskriftinni. Þannig slæ ég tvær flugur í einu höggi...spara mér ferð (og pening) í búðina og tebollurnar eru kannski ekki eins óhollar fyrir vikið.

Stundum er bara hægt að finna aðrar leiðir að hlutunum, kannski þurfum við ekki alltaf allt sem við höldum að við þurfum. Stundum er nóg að staldra við í smá stund og íhuga „þarf ég virkilega á þessu að halda?“ Niðurstaðan gæti komið okkur á óvart J